Íslenski boltinn

Magnús með fernu þegar Keflavík vann fyrsta Evrópusigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þorsteinsson.
Magnús Þorsteinsson. Mynd/Arnþór
Keflvíkingar urðu í gær fyrsta íslenska liðið til að vinna Evrópusigur í Futsal þegar þeir lögðu sænska liðið í Vimmerby, 10-6, en keppni í G-riðli undankeppni Evrópukeppninnar í Futsal (Futsal Cup) hófst þá á Ásvöllum.

Keflvíkingar byrjuðu betur gegn sænska liðinu og leiddu í leikhlé með tveimur mörkum gegn engu. Heimamenn byrjuðu svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og sýndu frábæra spilamennsku með Guðmund Steinarsson og Magnús Þorsteinsson í fararbroddi.

Á skömmum tíma höfðu þeir skorað fjögur mörk og breytt stöðunni í 6-0. Svíarnir voru ráðalausir á þessum kafla en gáfust ekki upp. Þeir breyttu um varnaraðferð og náðu að minnka muninn í 6-3 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. En Keflvíkingar, með góða blöndu af reyndum köppum og ungum leikmönnum, voru ekkert á því að gefa eftir og lönduðu öruggum sigri, 10-6.

Magnús Þorsteinsson skoraði fernu fyrir Keflavík í leiknum, Guðmundur Steinarsson var með tvö mörk líkt og Bojan Stefan Ljubicic en tvö síðustu mörkin skoruðu þeir Viktor Hafsteinsson og Lukas Males.

Önnur umferðin verður leikin í dag, sunnudag og fara allir leikirnir fram á Ásvöllum. Eindhoven og Vimmerby mætast kl. 15:00 og kl. 17:30 leika svo Keflvíkingar gegn KB France. Það kostar 500 krónur inn á leikdag og 1.000 krónur kostar passi sem gildir á alla leiki mótsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×