Körfubolti

Rúnar Ingi: Erum búnir að vera spila langt undir getu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Ingi Erlingsson.
Rúnar Ingi Erlingsson.
Njarðvíkingurinn Rúnar Ingi Erlingsson átti góðan leik í kvöld þegar Njarðvík vann 110-94 sigur á Stjörnunni í Garðbæ og sló Garðbæinga út úr 32 liða úrslitum bikarsins.

„Þetta var mjög ánægjulegur sigur því við vitum sjálfir að við erum búnir að vera spila langt undir getu í vetur. Við erum búnir að taka okkur saman í andlitinu og þetta er það sem er framundan.

„Við erum búnir að tala mikið um það hvernig við ætlum að koma stefndir til leiks. Það er nefnilega búið að vera mikið andleysi hjá okkur," viðurkennir Rúnar.

Rúnar var með 15 stig á 24 mínútum í kvöld og stóð sig einig vel í vörninni á móti Justin Shouse sem skoraði aðeins sex stig í fyrstu þremur leikhlutunum.

„Ég þarf að spila vel. Ég er kominn í stærra hlutverk og það er sett pressa á mig. Núna ætla ég að reyna að fara að standa undir henni," segir Rúnar.

„Ég held að þetta hafi bara snúist um vörn og aftur vörn hjá okkur. Við náðum að halda Justin Shouse mjög vel niðri framan af og við héldum einnig niðri öllum þeirra aukamönnum. Svo komu þeir aðeins til baka í lokin en eins og sést á stigatöflunni voru það bara þrír menn sem skoruðu," sagði Rúnar og hann er bjartsýnn á framhaldið eftir þennan sigur.

„Það er alveg bókað að við ætlum að fara að spila svona í vetur. Við erum í þessu af því að við ætlum að vinna þetta," sagði Rúnar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×