Fótbolti

Erna Björk sleit krossbönd - Mist inn í landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erna Björk Sigurðardóttir á æfingu með landsliðinu á EM í Finnlandi.
Erna Björk Sigurðardóttir á æfingu með landsliðinu á EM í Finnlandi. Mynd/Ossi Ahola
Erna Björk Sigurðardóttir er með slitin krossbönd og verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum á móti Serbíu og Króatíu í undankeppni HM. Sigurður Ragnar Eyjólfsson staðfesti þetta og hann hefur valið KR-inginn Mist Edvardsdóttur í landsliðshópinn í staðinn.

„Hópurinn breytist hjá okkur. Erna dettur út þar sem að hún er með slitin krossbönd," segir Sigurður Ragnar.

„Þetta gerðist í upphafi vináttuleiks milli a-liðsins og 19 ára liðsins á sunnudaginn. Erna missteig sig illa. Hún lenti ekki í samstuði heldur steig vitlaust niður í fótinn, snéri upp á hnéð og sleit í fjórða skiptið," segir Sigurður Ragnar sem er ekki búinn að ákveða sig hver verður miðvörður með Katrínu Jónsdóttur í leikjunum á móti Serbíu og Króatíu.

„Ég prófaði svolítið Kötu og Sif saman á Algarve-mótinu en það gekk ekki nógu vel þar sem við fengum á okkur sjö mörk í tveimur leikjum," segir Sigurður.

„Mér fannst það ekki ganga nógu vel þannig að það getur vel verið að við skoðum aðra kosti og það getur verið að ég færi leikmenn til í stöðum. Ég er líka að kalla Mist inn í hópinn sem er hafsent. Ég ætla að hugsa vel um það sem ég geri og ætla byrja á því að skoða stöðuna á leikmönnunum úti," sagði Sigurður Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×