Íslenski boltinn

Helgi: Getum unnið flest úrvalsdeildarlið á góðum degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi í leik með Val á síðasta tímabili.
Helgi í leik með Val á síðasta tímabili. Mynd/Vilhelm

Helgi Sigurðsson, leikmaður Víkings, var ánægður með að fá heimaleik gegn hans gamla félagi, Val, í 16-liða úrslitum VISA-bikarkeppni karla. Dregið var í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

„Það verður frábært að mæta Völsurum og fá heimaleik gegn öðru stórliði frá Reykjavík. Vonandi flykkist fólk á völlinn og sjái skemmtilegan leik," sagði Helgi en hann lék með Val áður en hann skipti yfir í Víking eftir síðasta tímabil.

„Það hefur verið mjög gaman í Víkingi. Við höfum staðið okkur vel í 1. deildinni og erum komnir þetta langt í bikarnum. Við erum þó ekki saddir og ætlum okkur stóra hluti. Við ætlum að veita Val harða samkeppni í þessum leik."

„Auðvitað er það líka alltaf gaman að mæta gömlum félögum. En það eru 22 leikmenn inn á vellinum og leikurinn snýst ekki bara um þetta."

Helgi segir að Víkingur eigi góðan möguleika á að komast áfram. „Það er ekkert allt of mikið á milli þessara tveggja liða þó svo að Valur hafi ákveðið forskot á því að leika í úrvalsdeildinni. En á góðum degi getum við unnið flest úrvalsdeildarliðin eins og við sýndum í vetur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×