Körfubolti

Hlynur besti leikmaður sænsku deildarinnar samkvæmt tölfræðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Daníel
Hlynur Bæringsson hefur spilað afar vel með Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta og er eins og er efstur í fráköstum í deildinni og meðal efstu mann í bæði stigum og stoðsendingum. Hann er líka sá leikmaður sem skilar mestu til síns liðs í deildinni og er því samkvæmt tölfræðinni besti leikmaður deildarinnar.

Hlynur er með framlag upp á 26,5 í leik í fyrstu þrettán leikjum sínum með Sundsvall og hefur fjögurra framlagsstiga forskot á Michael Palm hjá Borås Basket. Jakob Sigurðarson (16,0 í 17.sæti) og Logi Gunnarsson (15,9 í 19. sæti) eru einnig á topp tuttugu listanum.

Hlynur hefur tekið 11,7 fráköst að meðaltali í leik og er þar í efsta sæti og eini leikmaður deildarinnar sem er með tvennu að meðaltali í leik. Hlynur hefur ennfremur verið með tvennu í 9 af 13 leikjum sínum á þessu tímabili.

Hlynur er bæði í 13. sæti í stigum (15,9 stig í leik) og stoðsendingum (3,7). Hann er þriðji stigahæsti Íslendingurinn á eftir Loga Gunnarssyni (19,8 í 6. sæti) og Jakobi Sigurðarsyni (16,4 í 11. sæti). Hlynur er hinsvegar efstur Íslendinga í stoðsendingum en Jakob kemur þar næstur með 3,5 stoðsendingar í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×