Körfubolti

Sundsvall komið í 2-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Sundsvall Dragons tók í kvöld 2-0 forystu í rimmu sinni gegn Södertälje Kings í undanúrslitum úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

Sundsvall vann glæsilegan sigur á útivelli í kvöld, 81-76, eftir að hafa verið skrefi á eftir lengst af í leiknum. Södertälje var með forystuna í hálfleik, 44-38.

Sundsvall náði svo að snúa leiknum sér í hag á síðustu fimm mínútum leikins. Þegar sjö mínútur voru eftir náði Hlynur Bæringsson að jafna metin í stöðunni 66-66 og stuttu síðar náði Sundsvall forystu sem liðið hélt allt til loka.

Jakob Sigurðarson tryggði liðinu svo endanlega sigur með tveimur skotum af vítalínunni þegar ellefu sekúndur voru eftir.

Jakob var stigahæstur í liði Sundsvall í kvöld með 20 stig en hann gaf þar að auki fimm stoðsendingar. Hlynur skoraði tólf stig og tók sjö fráköst.

Sundsvall getur því tryggt sér sæti í lokaúrslitunum með sigri í þriðju viðureign liðanna á heimavelli á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×