Körfubolti

Spánverjar fóru illa með Serba á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol í leiknum í dag.
Pau Gasol í leiknum í dag. Mynd/AP
Spánverjar unnu sannfærandi 25 stiga sigur á Serbíu, 84-59, í leik liðanna í dag í milliriðli EM í körfubolta í Litháen. Spánverjar unnu alla fjóra leikhlutana og voru með ellefu stiga forskot í hálfleik, 43-32.

Spánverjar eiga Evrópumeistaratitil að verja og hafa unnið báða leiki sína í milliriðlinum eftir óvænt tap á móti Tyrkjum í lokaleik riðlakeppninnar. Þeir hafa ásatm Frökkum þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum.

Pau Gasol var með 26 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar fyrir spænska liðið og það á aðeins 23 mínútum. Pau hitti úr 9 af 11 skotum sínum utan af velli og setti niður 7 af 9 vítum sínum.

Yngri bróðir hans Marc Gasol var með 20 stig og 10 fráköst og Juan Carlos Navarro skoraði 14 stig og gaf 5 stoðsendingar.

Nenad Krstic skoraði 12 stig fyrir Serbíu og Dusko Savanović var með 11 stig. Serbar hafa nú tapað þremur leikjum í röð en þeir lágu á móti Frökkum og Litháum í leiknum á undan. Serbía á nú á hættu að missa af sæti í átta liða úrslitunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×