Körfubolti

Rússar ekki í vandræðum með Finna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kirilenko í baráttu undir körfunni í dag.
Kirilenko í baráttu undir körfunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Keppni á Evrópumeistaramótinu í körfubolta hélt áfram í dag en þá tryggðu Rússar og Makedónar sér sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Rússar unnu nokkuð öruggan sigur á Finnum, 79-60, á meðan að Makedónía vann aðeins tveggja stiga sigur á Georgíu, 65-63. Bæði Rússar og Makedónar eru með fullt hús stiga og öruggir um sæti í fjórðungsúrslitunum.

Í sama riðli vann Grikkland mikilvægan sigur á Slóveníu, 69-69, og er í þriðja sæti síns riðils í milliriðlakeppninni. Fjögur efstu liðin úr hvorum milliriðli komast áfram í fjórðungsúrslitin. Í hinum riðlinum eru Frakkar öruggir áfram.

Andrei Kirilenko skoraði fjórtán stig fyrir Rússa í dag og var stigahæstur en hjá Finnum skoraði Shawn Huff fjórtán stig. Mestu munaði um skelfilegan annan leikhluta hjá Finnum er liðið skoraði aðeins sex stig.

Bo McCalebb átti frábæran leik í liði Makedóna en hann skoraði sigurkörfuna þegar aðeins tvær sekúndur voru til leiksloka. Staðan í leiknum var þá 63-63 og gerði McCalebb sér þá lítið fyrir og keyrði í gegnum vörn Georgíu að körfunni og skoraði með sniðskoti.

Hann skoraði alls 27 stig í leiknum en miklu munaði um að Zaza Pachulia gat ekki spilað með Georgíu í dag vegna meiðsla.

Keppni heldur áfram á EM í Litháen á morgun og þá í hinum milliriðlinum. Þýskaland og Tyrkland eigast við í mikilvægum leik um hvort liðið ætlar að gera atlögu að því að koma sér í fjórðungsúrslitin en þessu lið eru í tveimur neðstu sætum riðilsins.

Leikirnir á morgun:

12.30 Spánn - Serbía

15.00 Þýskaland - Tyrkland

18.00 Litháen - Frakkland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×