Körfubolti

Makedónar réðu ekkert við Navarro - Spánverjar í úrslitin á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Carlos Navarro var óstöðvandi í leiknum í dag.
Juan Carlos Navarro var óstöðvandi í leiknum í dag. Mynd/AFP
Evrópumeistarar Spánverja eru komnir í úrslitaleikinn á þriðja Evrópumótinu í röð eftir tólf stiga sigur á Makedóníu, 92-80, í undanúrslitunum á EM í körfu í Litháen. Spánverjar lentu í vandræðum í þessum leik á móti spútnikliði Makedóníu en fyrirliðinn Juan Carlos Navarro átti stórleik og var öðrum fremur maðurinn á bak við sigur Spánverja.

Juan Carlos Navarro skoraði alls 35 stig í leiknum en hann setti niður 13 af 23 skotum sínum. Gasol-bræðurnir voru líka öflugir, Pau Gasol var með 22 stig og 17 fráköst og Marc Gasol skoraði 11 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.  Serge Ibaka var síðan með 11 stig,

Bo McCalebb var með 25 stig og 5 stoðsendingar hjá Makedóníu, fyrirliðinn Pero Antić var með 17 stig og 9 stig og Vlado Ilievski skoraði 15 stig.

Eftir jafna byrjun náðu Spánverjar góðum spretti og voru 26-18 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Spánverjar voru síðan komnir tíu stigum yfir í upphafi annars leikhluta, 28-18, og virtust vera á leiðinni að klára leikinn en raunin varð önnur.

Makedónar gáfust hinsvegar ekki upp og unnu næstu fjórar mínútur 14-3 og komust yfir í 32-31. Spánverjar náðu aftur fimm stiga forskoti en annars góður sprettur Makedóna sá til þess að þeir voru 45-44 yfir í hálfleik. Þrír leikmenn Makedónía voru komnir með 10 stig eða meira og það gekk flest allt upp hjá liðinu í þessum fyrri hálfleik.  

Liðin skiptust á að hafa forystuna í upphafi seinni hálfleiks þar sem bakverðir Juan Carlos Navarro (Spánn) og Bo McCalebb (Makedónía) fóru á kostum í sínum liðum. Navarro var alveg sjóðheitur, skoraði á endanum 19 stig í leikhlutanum og sá til þess að Spánverjar voru 71-62 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Serge Ibaka byrjaði fjórða leikhlutann á tveimur körfum eftir sendingar frá Pau Gasol og spænska liðið var skyndilega komið með tólf stiga forystu, 76-64. Spánverjar voru með frumkvæðið eftir það og unnu að lokum tólf stiga sigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×