Körfubolti

Undanúrslitin klár á EM í körfu - Rússar unnu Serba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Kirilenko.
Andrei Kirilenko. Mynd/AP
Rússar héldu sigurgöngu sinni áfram á Evrópumótinu í körfubolta og tryggðu sér sæti í undanúrslitunum á EM í Litháen með því að vinna tíu stiga sigur á Serbum, 77-67, í átta liða úrslitunum í kvöld. Rússar mæta Frökkum í undanúrslitunum á morgun en í hinum leiknum mætast Spánverjar og Makedónar.

Rússar hafa unnið alla níu leiki sína í keppninni og eru til alls líklegir í framhaldinu. Þeir eru eina liðið sem hefur ekki tapað leik í keppninni en bæði Spánverjar og Frakkar "gáfu" einn leik þar sem þeir hvíldu lykilmenn sína.

Andrei Kirilenko fór á kostum hjá Rússum í kvöld og var með 14 stig, 11 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Andrey Vorontsevich og Viktor Khryapa skoruðu báðir 11 stig og Alexey Shved var með 10 stig og 5 stoðsendingar.

Milos Teodosic skoraði 20 stig fyrir Serbíu en tapaði 9 boltum og hitti aðeins úr 6 af 15 skotum sínum. Nenad Krstic var með 13 stig.

Þetta er aðeins fjórða sinn sem Rússar komast í undanúrslitin en þeir enduðu í sjöunda sæti á EM 2009 eftir að hafa orðið Evrópumeistarar tveimur árum fyrr.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×