Körfubolti

Frakkar hvíldu bestu mennina sína í stórtapi á móti Spánverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker sat allan tímann á bekknum í dag.
Tony Parker sat allan tímann á bekknum í dag. Mynd/AP
Evrópumeistarar Spánverja urðu fyrstir til að vinna Frakka á Evrópumótinu í körfubolta í dag þegar þeir unnu 27 stiga stórsigur, 96-69, í lokaleik liðanna í milliriðli eitt. Bæði lið voru búin að tryggja sér tvö efstu sætin í riðlinum sem og sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Spánverjar unnu þar með riðilinn en báðar þjóðirnar hafa nú unnið 7 af 8 leikjum sínum á Evrópumótinu en Spánverjar töpuðu óvænt fyrir Tyrkjum í lokaleik sínum í riðlakeppninni.

Frakkar ákváðu að hvíla lykilmenn sína Tony Parker og Joakim Noah og munaði um minna. Spánverjar voru þó bara einu stigi yfir í hálfleik, 39-38, en stungu svo af með því að vinna þriðja leikhlutann 29-10.

Juan Carlos Navarro var stigahæstur Spánverja með 16 stig á 15 mínútum, Rudy Fernandez skoraði 15 stig á 20 mínútum og Pau Gasol var með 11 stig á 18 mínútum. Kévin Seraphin skoraði mest fyrir Frakka eða 18 stig á 19 mínútum en Ali Traoré skoraði 16 stig.

Serbar tryggðu sér fyrr í dag sæti í átta liða úrslitunum með 68-67 sigri á Tyrkjum. Milos Teodosic var með 20 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar fyrir Serbíu í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×