Fótbolti

Affelay með slitið krossband og á leið í aðgerð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Affelay fagnar eftir sigur Barcelona í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð.
Affelay fagnar eftir sigur Barcelona í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Nordic Photoso / AFP
Ibrahim Affelay þarf að gangast undir aðgerð vegna hnémeiðsla og verður af þeim sökum frá næstu sex mánuðina hið minnsta. Óvíst er hvort að hann geti spilað meira með Barcelona á leiktíðinni.

Affelay verð fyrir því óláni að slíta krossband í vinstra hné á æfingu liðsins í síðustu viku en hann er nýbúinn að jafna sig á tognun í lærvöðva. Hann hefur komið við sögu í tveimur leikjum liðsins í haust.

„Fyrstu dagarnir eftir meiðslin voru mjög erfiðir fyrir hann,“ sagði Rob Jansen, umboðsmaður Affelay við fjölmiðla ytra. „En hann er harðákveðinn í að gefa allt sitt í endurhæfinguna og er aðgerðin fyrsta skrefið í henni.“

Affelay er 25 ára hollenskur landsliðsmaður en hann gekk til liðs við Barcelona frá PSV í janúar síðastilðnum. Hann hefur átt erfitt með að festa sig í sessi í gríðarlega sterku liði Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×