Körfubolti

Helgi Már samdi við nýtt félag í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon.
Helgi Már Magnússon. Mynd/Hag
Landsliðsmaðurinn Helgi Már Magnússon er búinn að semja við nýtt lið í sænska körfuboltanum en hann mun spila með 08 Stockholm HR í vetur. Helgi Már lék í fyrra með Uppsala Basket en hafði áður spilað með Solna Vikings og er þetta því þriðja félagið hans í sænska körfuboltanum.

„Síðustu ár hafa þeir verið í mikilli lægð vegna peningaleysis en í ár ákváðu þeir að leggja aðeins meira í þetta. Þeir eru komnir með nýjan þjálfara og nokkra nýja leikmenn og þeir hafa háleit markmið fyrir komandi tímabil. Svo skemmir ekki fyrir að þeir spila í svörtu og hvítu eins og Stórveldið," sagði Helgi í samtali við karfan.is.

Helgi Már er 29 ára gamall framherji sem var með 7,9 stig og 5,7 fráköst á 25,0 mínútum á síðustu leiktíð með Uppsala Basket en hann spilaði þá best í nóvember og desember þegar hann var með 10,8 stig og 6,6 fráköst að meðaltali í 13 leikjum.

08 Stockholm endaði í 9. sæti á síðustu leiktíð og tókst ekki að komast í úrslitakeppnina. Helgi Már hefur komist í úrslitakeppnina á báðum árum sínum í sænsku deildinni, hann fór í átta liða úrslitin með Uppsala í vor og í undanúrslitin með Solna 2009-2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×