Fótbolti

Michael Laudrup búinn að segja upp hjá Mallorca

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Laudrup.
Michael Laudrup. Mynd/AFP
Michael Laudrup, fyrrum leikmaður Barcelona, Real Madrid, Juventus og danska landsliðsins, hefur sagt upp störfum hjá Mallorca en hann hefur þjálfað spænska liðið frá 2010 og var með samning til júní 2012.

Laudrup sagði starfi sínu lausu eftir að hafa lent upp á kant við stjórn Mallorca en aðstoðarmaður hans, Erik Larsen, var rekinn í gær fyrir að gagnrýna stjórn félagsins í dönskum fjölmiðlum. Larsen lét hafa það eftir sér um Lorenzo Serra Ferrer, varaformann Mallorca, að hann væri "vond persóna".

„Eitt af því mikilvægasta í fótboltanum er starfsumhverfið. Þú getur unnið og tapað leikjum en þér verður að líða vel," sagði Michael Laudrup.

Mallorca er í 11. sæti í spænsku deildinni en liðið vann 2-1 sigur á Real Sociedad um helgina í lokaleik sínum undir stjórn Laudrup.

Michael Laudrup er orðinn 47 ára gamall en lagði lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 1998. Laudrup var fyrst aðstoðarþjálfari danska landsliðsins frá 2000-2002 en hefur síðan þjálfað Bröndby (2002-2006), Getafe (2007–2008), Spartak Moskvu (2008–2009) og Mallorca (2010–2011).    






Fleiri fréttir

Sjá meira


×