Körfubolti

Jón Arnór fór á kostum í sigri á Hauki Helga og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór í leik með KR árið 2009.
Jón Arnór í leik með KR árið 2009.
Jón Arnór Stefánsson skoraði 20 stig þegar að lið hans, CAI Zaragoza, vann góðan útisigur á Assignia Manresa, 81-74, í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Haukur Helgi Pálsson skoraði sex stig fyrir Manresa en hann var með 100 prósenta skotnýtingu í dag.

Óhætt er að segja að þetta sé besti leikur Jóns Arnórs á tímabilinu til þessa en hann var næst stigahæsti maður Zaragoza. Þar að auki tók hann tvö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Skotnýtingin hans var frábær, en hann setti niður fjórar af fimm þriggja stiga tilraunum sínum og alls átta af tíu skotum sínum í leiknum.

Staðan var jöfn, 68-68, þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka en þá tóku gestirnir frá Zaragoza leikinn í sínar hendur. Jón Arnór kom sínum mönnum í 74-70 og eftir það var eftirleikurinn auðveldur.

Staðan í hálfleik var 35-29, Manresa í vil en Zaragoza gerði út um leikinn með frábærum fjórða leikhluta er liðið skoraði 34 stig gegn 21 frá heimamönnum.

Þetta var fyrsti Íslendingaslagurinn í spænsku úrvalsdeildinni, sterkustu körfuboltadeild Evrópu. Haukur Helgi hefur lítið fengið að spila upp á síðkastið en kom öflugur inn í dag með því að setja niður tvo þrista í tveimur tilraunum á þeim átta mínútum sem hann fékk. Voru það einu skottilraunir hans í leiknum.

Bæði lið eru með átta stig eftir átta leiki og eru um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×