Körfubolti

Trúðum því að við værum bestir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson með sænska meistarabikarinn eftir sigurinn á Norrköping í gær.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson með sænska meistarabikarinn eftir sigurinn á Norrköping í gær. Mynd/Sundsvall Tidning/Annkristin Haglund
Sundsvall Dragons, með þá Hlyn Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson innanborðs, varð í gær Svíþjóðarmeistari í körfubolta. Sundsvall vann sigur á Norrköping Dolphins, 102-83, í oddaleik í rimmu um titilinn í gær.

Það var snemma ljóst að Jakob var funheitur. Hann skoraði fyrstu fimm stigin í leiknum og fyrstu tíu af fimmtán stigum Sundsvall. Hann setti fjögur þriggja stiga skot í röð og alls sex í fyrri hálfleik. Sundsvall var með 22 stiga forystu eftir fyrri hálfleik og Jakob langstigahæstur með 26 stig. Í síðari hálfleik náði Norrköping aldrei að saxa verulega á forystuna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Alltaf átti Sundsvall svar, oftast fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hlynur var á sínu fyrsta tímabili með Sundsvall og hrósaði Jakobi sérstaklega eftir leik í samtali við Fréttablaðið. „Það var ótrúlegt að sjá Jakob í þessum leik. Mikið svakalega var hann góður,“ sagði Hlynur og furðaði á sig að Jakob hefði fengið að leika lausum hala.

„Norrköping er með mjög hæfileikaríka og góða leikmenn en þegar kemur að því að leika skipulega eru þeir úti á túni. Hann var búinn að hitta úr fjórum í röð og enn galopinn. Jakob refsaði þeim grimmilega.“

Hlynur sagði skýrt dæmi hafa verið í upphafi fjórða leikhluta þegar hann gaf stoðsendingu á Jakob sem setti niður sinn sjöunda þrist í leiknum. „Ég keyrði upp að körfunni og var ekkert sérstaklega líklegur til að skora, þó ég segi sjálfur frá. Samt tvímönnuðu þeir á mig og skildu eftir mann sem var búinn að setja niður sex þrista galopinn á kantinum. Ég gaf bara boltann á hann.“

Hlynur sagði að það hefði munað mikið um að margir í liðinu hefðu áður unnið titla og því vitað hvað þyrfti til í oddaleik sem þessum. „Sundsvall varð meistari árið 2009 og margir eru enn í liðinu. Jakob varð meistari með KR árið 2009 og ég með Snæfelli í fyrra. Það er erfitt að fara í úrslitaleiki án þess að þekkja til. Við erum einfaldlega með leikmenn sem kunna það,“ sagði Hlynur, sem bætti við að þeir hefðu mætt fullir sjálfstrausts til leiks í gær. „Við trúðum því að við værum bestir og ætluðum okkur einfaldlega að vinna.“

Hann sagði að tímabilið í Svíþjóð hefði verið frábær reynsla fyrir sig. „Ég þurfti að fá nýja áskorun á ferlinum og fékk hana hér. Það hefur gengið á ýmsu, eins og eðlilegt er þegar fimmtíu leikir eru spilaðir á tímabilinu, en ég er samt mjög sáttur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×