Körfubolti

Finn það á æfingunum að alvaran er að byrja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir, sem er jafnan númer 4, spilar í nýju númeri með slóvakíska liðinu Dobri Anjeli.
Helena Sverrisdóttir, sem er jafnan númer 4, spilar í nýju númeri með slóvakíska liðinu Dobri Anjeli.
Helena Sverrisdóttirkörfuboltakona hefur stigið mörg tímamótaskref fyrir íslenska kvennakörfu þrátt fyrir ungan aldur og hún mun taka eitt í viðbót í Kraká í Póllandi á morgun. Hún er á sínu fyrsta ári með slóvakísku meisturunum í Dobri Anjeli og eftir létta sigra í deildinni er komið að því að mæta pólsku meisturunum í Wisla Kraká í fyrsta Euroleague-leik tímabilsins.

„Þetta er mjög spennandi. Maður finnur það á æfingunum og á stjórninni að alvaran er að byrja. Við erum búnar að spila þrjá leiki í deildinni en pressan er núna orðin meiri á æfingum,“ segir Helena, sem kann vel við sig og liðsfélagana.

„Mér líður mjög vel og liðsandinn er rosalega skemmtilegur. Við búum nánast allar í sömu byggingunni og það er stemmning í kringum það,“ segir Helena, sem er farin að spreyta sig í slóvakískunni.

„Ég er alltaf að fá hrós fyrir að ég sé dugleg að tala en ég er farin að geta talið upp í tuttugu og farin að skilja flest á körfuboltavellinum. Þetta tungumál er samt rosalega flókið,“ segir Helena, en hún verður ekki í byrjunarliðinu í Póllandi.

„Ég er búin að byrja inn á í flestum leikjum en eftir smá spjall við þjálfarann vill hann að ég komi inn sem sjötti maður,“ segir Helena, sem fékk þó skýr skilboð um að hún væri að standa sig vel og ætti bara að halda sínu striki.

Helena spilaði við góðan orðstír með TCU undanfarna fjóra vetur í bandaríska háskólaboltanum en er nú að stíga sín fyrstu spor sem atvinnumaður.

„Maður þarf að breyta hugarfarinu því í háskólanum snérist þetta alltaf um að læra og læra meira. Það var ekki eins mikið pressuástand en núna er búið að setja mikla peninga í mig þannig að mér er ætlað að gera mitt besta og helst meira en það. Það er fullt af góðum leikmönnum og ég get aldrei slakað á. Það er aldrei tími, hvort sem ég er í vörn eða sókn,“ segir Helena.

Helena og félagar hafa byrjað tímabilið vel heima fyrir, en liðið er með þrjá stóra sigra í fyrstu þremur leikjum sínum. Helena var með 17 stig í 85 stiga sigri á Roznava um helgina.

„Það eru kannski tvö til þrjú góð lið í slóvakísku deildinni en hingað til höfum við verið að vinna með 70 til 80 stigum. Við erum búnar að fá fullt af fínum æfingaleikjum í bland við þessa rústleiki,“ segir Helena. Mótherjinn á morgun er sterkur, enda búinn að komast í átta liða úrslit Euroleague undanfarin tvö tímabil.

„Leikmennirnir eru allir eldri og reyndari, en við ættum að geta hlaupið á þær og reynt að nota okkar styrkleika. Við erum með ungt lið en við erum ferskar og ættum að vera búnar að spila okkur vel saman undanfarið. Ég hef þá tilfinningu að við eigum góðan möguleika á miðvikudaginn ef við spilum eins vel og við getum,“ segir Helena að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×