Körfubolti

Helena og félagar töpuðu í Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena í leik með Good Angels.
Helena í leik með Good Angels.
Good Angels Kosice tapaði fyrsta leik sínum í 32-liða úrslitum Evrópudeildar kvenna í körfubolta er liðið mætti UMMC Ekaterinburg í Rússlandi. Leiknum lauk með sex stiga sigri Rússanna, 61-55.

Helena Sverrisdóttir leikur með Góðu englunum og skoraði þrjú stig í kvöld. Alls lék hún í 22 mínútur en nýtti aðeins eitt af fimm skotum sínum. Hún tók þrjú fráköst og stal boltanum tvívegis.

Rússarnir byrjuðu miklu betur í leiknum og voru með tíu stiga forystu, 20-10, eftir fyrsta leikhlutann. Leikar jöfnuðust eftir þetta og munaði aðeins einu stigi á liðunum þegar fjórði leikhluti hófst.

En Rússarnir skoruðu fyrstu átta stigin í leikhlutanum og fóru þar með langt með að tryggja sér sigur.

Það lið sem verður fyrr til að vinna tvo leiki í 32-liða úrslitunum kemst áfram. Liðin mætast næst á föstudagskvöldið og svo í oddaleik ef þörf krefur eftir eina viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×