Fótbolti

Real Madrid kjöldró Baskana frá San Sebastian

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ronaldo fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Ronaldo fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Meistaraefnin í Real Madrid endurheimtu sex stiga forskot sitt á toppi spænsku deildarinnar í knattspyrnu með 5-1 heimasigri á Real Sociedad.

Það tók Madridinga aðeins sex mínútur að komast á blað á Bernabeu í kvöld. Þá skoraði Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain með skoti utarlega úr teignum framhjá Claudio Bravo í marki Sociedad.

Cristiano Ronaldo kom heimamönnum í 2-0 eftir hálftímaleik þegar hann slapp einn í gegn og kláraði færi sitt vel. Fimm mínútum fyrir leikhlé skoraði Frakkinn Karim Benzema snyrtilegt mark og úrslitin í raun ráðin.

Xabier Prieto minnkaði muninn aðeins mínútu síðar með langskoti sem hafði viðkomu í Sergio Ramos á leið sinni í markið. Markið varð þó ekki til þess að valda Madridingum áhyggjum.

Í síðari hálfleik bættu Madridingar við tveimur mörkum. Fyrst skoraði Benzema annað mark sitt og slíkt hið sama gerði Cristiano Ronaldo. Staðan 5-1 og fleiri mörk voru ekki skoruð þær 35 mínútur sem lifðu leiks.

Madridingar léku án Portúgalans Pepe og Þjóðverjans Mesut Özil auk þess sem Jose Mourinho sat uppi í stúku. Það hafði engin áhrif á leik liðsins nema ef vera skyldi til góðs.

Madridingar hafa sex stiga forskot á Barcelona á toppi deildarinnar eftir sigurinn.


Tengdar fréttir

Barcelona vann mikilvægan sigur á Mallorca

Lionel Messi var í aðalhlutverki að vanda í 2-0 útisigri Barcelona á Mallorca í dag. Börsungar spiluðu stóran hluta seinni hálfleiks manni færri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×