Körfubolti

Kentucky bandarískur háskólameistari í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Kentucky tryggði sér bandaríska háskólameistaratitilinn í körfubolta í nótt þegar liðið vann Kansas 67-59 í úrslitaleik. Það hefur mikið verið látið með þetta Kentucky-lið enda hafa þeir verið illviðráðanlegir í vetur og margir leikmanna liðsins þykja líklegir til að vera valdir snemma í nýliðavali NBA-deildarinnar í sumar.

Kentucky náði góðri forystu snemma og var komið 18 stigum yfir þegar skammt var til hálfleiks. Kansas gafst þó ekki upp og vann sig inn í leikinn í seinni hálfleik. Munurinn fór niður í sjö stig en nær komst Kansas-liðið ekki og Kentucky fagnaði sigri.

Þetta er í áttunda sinn sem Kentucky-skólinn vinnur titilinn en skólinn vann síðast árið 1998. John Calipari þjálfar liðið og undir hans stjórn vann Kentucky 38 af 40 leikjum sínum á tímabilinu. Þetta var í fyrsta sinn sem hinn 53 ára gamli Calipari gerir lið að háskólameisturum.

Miðherjinn Anthony Davis er stjarna Kentucky-liðsins en liðið býr yfir gríðarlegri breidd og spilar frábæra vörn. Davis hitti aðeins úr 1 af 10 skotum í úrslitaleiknum en var með 16 fráköst, 6 varin skot og 5 stoðsendingar auk 6 stiga. Doron Lamb var stigahæstur hjá Kentucky með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×