Fótbolti

Metin falla enn hjá Messi | Skoraði fjögur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lionel Messi skoraði öll fjögur mörk sinna manna í Barcelona í 4-0 sigri á grönnunum í Espanyol. Hann hefur nú skorað 50 deildarmörk á tímabilinu.

Þar með bætti hann 35 ára gamalt met Dudu Gerogescu sem skoraði 47 mörk fyrir Dinamo Búkarest tímabilið 1976-77.

Fyrr í vikunni bætti hann markamet Gerd Müller sem skoraði 67 mörk í öllum keppnum fyrir Bayern München tímabilið 1972-73. Messi er nú kominn í 72 mörk á þessu tímabili sem er lyginni líkast.

Þetta var hin fullkomna kveðjugjöf fyrir stjórann Pep Guardiola sem stýrði í kvöld sínum síðasta heimaleik hjá Barcelona. Hann gaf það út fyrir stuttu að hann myndi láta af störfum nú í sumar.

Guardiola fékk miklar og góðar kveðjur frá stuðningsmönnum Barcelona enda er hann sigursælasti þjálfari liðsins frá upphafi. Liðið hefur unnið þrettán titla í fjögurra ára stjórnartíð hans. Sá fjórtándi gæti enn bæst í safnið ef Börsungar bera sigur úr býtum í úrslitum spænsku bikarkeppninnar síðar í mánuðinum.

Enginn hefur áður skorað 50 mörk á einu tímabili í efstu deild á Spáni en metið setti Cristiano Ronaldo í fyrra þegar hann skoraði 41 mark fyrir Real Madrid.

Ronaldo skoraði í kvöld þegar að Madrídingar unnu nauman 2-1 sigur Granada á sama tíma í kvöld. Hann er nú kominn með 45 deildarmark á tímabilinu.

Real Madrid er þegar búið að tryggja sér spænska meistaratitilinn en ein umferð er eftir af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×