Fótbolti

Ronaldo: Gef sjálfum mér tíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo var ánægður með frammistöðu sína með Real Madrid á nýliðnu tímabili. Hann gefur sjálfum sér hæstu einkunn - hærri einkunn en liðinu sjálfu.

Ronaldo skoraði 57 mörk í öllum keppnum á tímabilinu, þar af 46 í deildinni. Real Madrid varð meistari og varð fyrsta félagið til að ná 100 stigum á einu tímabili. Real skoraði 121 mark sem er einnig met.

„Ég myndi gefa tímabilinu mínu tíu í einkunn en liðið fær níu. Það er vegna þess að við vildum vinna fleiri titla, eins og Meistaradeild Evrópu," sagði Ronaldo við spænska fjölmiðla.

„Við komumst nálægt því í ár en við þurfum að halda ró okkar. Tían kemur á næsta tímabili eða því þarnæsta. Allir vilja vinna Meistaradeildina."

Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, hefur lýst þeirri skoðun sinni að Ronaldo eigi skilið að fá Gullboltann í ár. „Ég er sammála því sem Mourinho sagði en ég ræð þessu ekki. En mér fannst tímabilið mitt frábært. Ég vann erfiðustu deild í heimi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×