Körfubolti

Carmelo og LeBron í stuði í sigri á Spánverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bandaríska körfuboltalandsliðið sýndi styrk sinn í æfingaleik á móti Spáni í gærkvöldi en Bandaríkjamenn unnu þar öruggan 22 stiga sigur, 100-78, í uppgjöri liðanna sem mættust í úrslitaleiknum á síðustu Ólympíuleikum. Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir Ólympíuleikana í London.

Carmelo Anthony kom inn af bekknum og skoraði 23 af 27 stigum sínum í fyrri hálfleiknum og LeBron James var með 25 stig og 8 stoðsendingar. Saman hittu þeir félagar úr 8 af 13 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Pau Gasol skoraði 19 stig fyrir Spán og Serge Ibaka hjá Oklahoma City Thunder liðinu var með 16 stig.

Bandaríska liðið vann þar með alla fimm undirbúningsleiki sína og það stefnir allt í það að liðið vinni gullið á öðrum Ólympíuleikunum í röð. „Við spiluðum einstaklega vel og Carmelo var stórkostlegur. Góður leikur okkar í fyrsta og öðrum leikhluta réði úrslitum í kvöld," sagði Mike Krzyzewski, þjálfari bandaríska liðsins.

„Þetta var gott próf fyrir okkur. Nú eru æfingaleikirnir búnir og við getum farið að gíra okkur upp fyrir alvöruna í London," sagði LeBron James.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×