Skoðun

Hvetjum til húsnæðissparnaðar

Eygló Harðardóttir skrifar

Sögulega hefur lítill sparnaður verið á Íslandi. Því hafði það alvarlegar afleiðingar þegar lög um sparnað vegna húsnæðis voru afnumin í lok síðustu aldar. Það unga fólk sem keypti sína fyrstu eign á árunum 2000 til 2008 átti lítið sem ekkert eigið fé. Til að koma til móts við takmarkað eigið fé stóðu því til boða lán með allt að 100% veðsetningu. Fáir valkostir buðust umfram séreign og eina leiðin sem margir sáu til að tryggja sér öruggt húsnæði var að taka lán og fá lánað veð hjá ættingjum og vinum.



Í dag stendur þessi hópur eftir með þunga skuldabyrði vegna mikilla hækkana á verðtryggðum lánum og lækkandi fasteignaverðs. Búsetuformum hefur ekki fjölgað, verðtryggingin tröllríður enn bókhaldi íslenskra heimila og enginn hvati er til sparnaðar vegna húsnæðiskaupa.



Því er ekki að furða að þeir sem hafa ekki enn drekkt sér í skuldum horfa með hryllingi til þátttöku á íslenskum húsnæðismarkaði. Úr þessu verður að bæta. Undir minni forystu lagði meirihluti verðtryggingarnefndar efnahags- og viðskiptaráðherra til fjölmargar leiðir til að búa til betri húsnæðismarkað. Þar er lagt til að innleitt verði óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd, í stað verðtryggðra jafngreiðslulána. Brýnt væri að fjölga búsetuformum með því að styrkja rekstrarumhverfi leigufélaga og húsnæðissamvinnufélaga. Það væri hægt að gera með því að styðja við fjármögnun þeirra með stofnstyrkjum, ívilnunum og tímabundnum opinberum stuðningi og breytingum á húsnæðisbótakerfinu. Þegar er unnið að þessu.



Síðast en ekki síst þyrfti að hvetja til sparnaðar. Það verður að gera til að hraða eignamyndun, lækka fjármagnskostnað og minnka skuldsetningu heimilanna.

Því hyggst ég leggja fram frumvarp um skattaívilnun til ungs fólks sem vill leggja til hliðar peninga til að kaupa húsnæði eða búseturétt. Þar er lagt til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur veiti 20% skattaafslátt af innleggi hvers árs, að hámarki 200 þús. kr. Sparnaðurinn yrði undanþeginn fjármagnstekjuskatti.



Þannig tryggjum við að börnin okkar steypi sér aldrei aftur í sömu skuldir og við.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×