Skoðun

Það er töff að nota hjálm

Aðalheiður Dögg Finnsdóttir skrifar
Nú þegar sumardagurinn fyrsti hefur gengið í garð með hækkandi sól og batnandi veðri fylgir óhjákvæmilega aukin útivist, til að mynda hjólreiðar. Alltaf er brýnt fyrir börnum að nota hjálm, sama hvaða farartæki þau kjósa sér, reiðhjól, hjólabretti, línuskauta eða hlaupahjól. Hinir eldri, ábyrgðarfullu, brýna fyrir þeim yngri.

Ekki virðist það þó skipta jafn miklu máli fyrir fullorðna að nota hjálm. Hrósa skal þeim sem gera það og sýna þar með gott fordæmi. Það sem virðist einkenna einstaklinga sem nota ekki hjálm er sú hugsun að ekkert komi fyrir þá, þeir fari varlega og sumum finnst einfaldlega ljótt að vera með hjálm. Það þykir ekki töff. Hins vegar er það sem er í rauninni ekki töff er að gleyma því að slysin gera ekki boð á undan sér og að þau geta haft alvarlegar afleiðingar. Fólk lærir yfirleitt af reynslunni en það sem er óskiljanlegt er af hverju eitthvað slæmt þurfi að gerast til þess að fullorðið fólk noti öryggisbúnað.

Þetta þekki ég persónulega allt of vel. Fyrir þremur árum hugsaði ég ekki mikið út í notkun hjálma og tók yfirleitt ekki eftir því hvort annað fólk notaði hjálm. Það breyttist í maí árið 2009. Keyrt var á yngri systur mína þegar hún hjólaði yfir gatnamót. Hún var ekki með hjálm. Algert slys var um að ræða, slys sem gerir ekki boð á undan sér. Eftir slysið tók við sjúkrahúsdvöl, sjúkraþjálfari og óteljandi læknisheimsóknir. Hún missti hreyfigetu í vinstri fæti, sjónin skertist og einbeitingarleysi og þróttleysi gerðu vart við sig. Þetta eru dæmi um þau líkamlegu einkenni sem hún þurfti að vinna sig upp úr svo ekki sé minnst á andlega heilsu sem hún þurfti einnig að vinna í.

Afleyðingar slyssins draga enn dilk á eftir sér og mun ýmis konar skert líkamsgeta hrjá hana allt hennar líf. Slysið hafði ekki einungis áhrif á hana heldur einnig fjölskyldu og vini. Hugsunarháttur og viðhorf margra breyttist talsvert.

Sama reglan gildir um bílbelti og hjálma, sama hversu stutt þú ert að fara og hversu varlega þú ferð veistu aldrei hvenær slysin verða. Ég er búin að læra af reynslunni og mun alltaf nota hjálm. Biðla ég til ykkar hjólreiðamanna, yngri sem eldri, að nota hjálm. Það eru forréttindi að vera heilbrigður. Það er töff að nota hjálm.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×