Skoðun

Við eigum rétt á að vita hvers við neytum

Í janúar á þessu ári tók gildi reglugerð sem krefst merkingar á matvælum sem innihalda erfðabreytt efni. Núverandi ríkisstjórn á þakkir skyldar fyrir að setja þessar löngu tímabæru reglur. Þær tryggja valfrelsi neytenda en takmarka á engan hátt fjölbreytni matvæla sem innflytjendur geta boðið upp á.

Ef þeir kaupa matvæli frá löndum sem merkja erfðabreytt matvæli (sem eru yfir 50 talsins, þ.m.t. 27 ríki ESB) geta þeir verið þess fullvissir að öll matvæli sem innihalda erfðabreytt efni séu merkt. Flytji þeir inn matvæli frá Bandaríkjunum (eða öðrum löndum sem ekki merkja erfðabreytt matvæli) þurfa þeir að láta greina hvort þau innihaldi erfðabreytt efni. En margar bandarískar matvörur eru framleiddar með leyfi í Evrópu sem gerir innflytjendum kleift að flytja þær inn án vandræða. Andstætt því sem haldið er fram er reglugerðin verslunum ekki til vandræða heldur skapar þeim markaðstækifæri. Matvörukaupmenn geta aflað sér trausts neytenda og styrkt stöðu sína með því að hætta að bjóða upp á erfðabreytt matvæli og lýst verslanir sínar lausar við slíkar vörur.

Fyrir skömmu könnuðu Neytendasamtökin, NLFÍ og MATVÍS hvort bandarískar matvörur í verslunum með erfðabreyttum efnum væru merktar. Í ljós kom að níu af tólf vörum sem greindar voru innihéldu erfðabreytt efni og meðal þeirra voru morgunkorn, skyndifæði, bökunarmjöl og neysluvörur ætlaðar heilsuræktarfólki. Engin þessara níu vara reyndust merktar, og þrátt fyrir loforð verslana um að merkja eða innkalla þessar vörur virðist það enn ekki hafa gerst.

Þurfum við að hafa áhyggjur af því hvort matvara innihaldi erfðabreytt efni? Líftækniiðnaðurinn hefur alltaf fullyrt að heilsu okkar stafi engin hætta af neyslu erfðabreyttra matvæla því meltingarkerfið sundri öllu erfðabreyttu DNA. Vísindarannsóknir hafa þó sýnt að DNA í erfðabreyttum matvælum komist í gegnum meltingarveg okkar, þarmabakteríur geti innbyrt það og það komist í blóð og einstök líffæri, ferli sem nefnt er flöt genafærsla.

Fyrir meira en áratug (2001) leiddi bresk rannsókn í ljós að erfðabreytt soja fannst í smáþörmum manna sem neyttu einnar erfðabreyttrar sojamáltíðar og vísbendingar voru um flata genafærslu. Ný kanadísk rannsókn (2011) fann Bt-eitur, sem splæst er í erfðamengi nytjajurta (t.d. maís), í blóði þungaðra kvenna og í blóði ófæddra barna þeirra.

Vísindamenn sem gerðu rannsóknina töldu mjög líklegt að Bt-eiturpróteinið Cry1Ab sem þeir greindu í blóði hefði borist þangað úr fæðunni sem konurnar neyttu, en kanadísk matvæli eru auðug af erfðabreyttum efnum og afurðum búfjár – kjöti, mjólk og eggjum – sem fóðrað er á erfðabreyttu fóðri.

Ný frönsk ritrýnd vísindarannsókn hefur leitt í ljós niðurstöður sem árétta enn frekar hvers vegna við þurfum að vera á varðbergi fyrir erfðabreyttum matvælum. Rannsóknin sýndi að neysla tilraunadýra á erfðabreytta maísyrkinu NK603 og skordýraeitrinu Roundup (sem úðað er á maísakra) olli æxlismyndun, fjölþættu tjóni á líffærum og ótímabærum dauða. Vísindamennirnir leiddu í ljós að jafnvel rottur sem fengu minnstu skammta af NK603 maís mynduðu æxli í brjóstvöðvum og urðu fyrir alvarlegum lifrar- og nýrnaskaða, karldýrin eftir aðeins fjóra mánuði og kvenrottur eftir sjö mánuði (sbr. við 23 og 14 mánuði í samanburðarhópnum).

Mikilvægi þessarar nýju rannsóknar er ótvírætt. Öryggi erfðabreyttra matvæla er metið á grundvelli tilrauna sem líftæknifyrirtækin sjálf gera og byggjast á fóðrun dýra í þrjá mánuði mest, sem jafngildir uppvaxtarskeiði í rottum, en þær lifa að jafnaði í tvö ár. Franska rannsóknin kannaði hins vegar langtímaáhrif (heilt æviskeið) og leiddi í ljós að rottur sem fengu erfðabreytta maísyrkið NK603 eða vatn með Roundup-eitri í magni sem leyft er í drykkjarvatni urðu fyrir skelfilegu líkamstjóni og dóu mun fyrr en rottur sem fengu venjulegt fóður. Rannsóknin vekur athygli á því að kerfi leyfisveitinga fyrir erfðabreyttar vörur er stórgallað – skammtímatilraunir á dýrum geta ekki skorið úr um öryggi erfðabreyttra afurða. Það er ekki síðra áhyggjuefni að grunngögnum dýratilrauna sem líftækniiðnaðurinn gerir er haldið leyndum, sem gerir sjálfstæðum vísindamönnum ókleift að ritrýna niðurstöður þeirra.

Ef rottur sem fóðraðar eru á erfðabreyttu fóðri verða fyrir jafn alvarlegu heilsutjóni og rotturnar í frönsku rannsókninni, ímyndið ykkur hvað mundi gerast ef rottur væru fóðraðar á erfðabreytta lyfjabygginu sem Orf Líftækni ræktar í Gunnarsholti. Það er kominn tími til að stjórnvöld geri stöðvun útiræktunar á erfðabreyttum plöntum að forgangsmáli.




Skoðun

Sjá meira


×