Skoðun

Sanngjörn meðhöndlun óskast

Fréttir herma að Útlendingastofnun hafi breytt reglugerðum svo að hælisleitandi megi ekki sækja um tímabundið atvinnuleyfi ef hann hefur áður sótt um hæli í landi þar sem Dyflinnarsáttmálinn ríkir. Hælisleitandi skal vera sendur sem fyrst til baka til þess lands sem hann kom frá ef ekki er hægt að sýna fram á að málið þarfnist sérstakrar skoðunar.

Ef til vill skiptir þessi breyting ekki miklu þegar brottvísunin á sér samstundis eða fljótt stað. En þegar hælisleitandi bíður hér á landi á milli vonar og ótta, þegar ástæða þykir að kanna sérstakar aðstæður, getur það valdið honum tilfinningum eins og pirringi og vonleysi um framtíðina, því það getur tekið yfirvöld marga mánuði að komast að niðurstöðu.

Mér skilst á þeim hælisleitendum sem ég þekki að sérstakar ástæður séu fjölmargar. Það getur verið ofbeldisárás (rasismi) í því landi sem hælisleitandi sótti fyrst um, ósanngjörn afgreiðsla máls, órökstuddur þrýstingur brottvísunar o.fl. Að mínu mati krefjast slík dæmi endurskoðunar á grundvelli Dyflinnarsáttmálans.

Í fréttum RÚV í maí sl. kom fram að það kostaði 7.000 kr. á hverjum degi að framfæra hvern hælisleitanda. Ef hælisleitandi finnur atvinnu, þarfnast hann ekki þessarar opinberu framfærslu. Margir hælisleitendur vilja vinna. Með því geta þeir a.m.k. staðfest að tilvist þeirra er ekki til einskis. Jafnframt sparast opinbert fé. Hvers vegna er þá svona erfitt fyrir þá að fá tímabundið atvinnuleyfi?

Ég óska þess að meðhöndlun hælisleitenda sé sanngjörn og afgreiðsla mála þeirra sé gagnsæ með öllu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×