Fótbolti

Tíu Málaga-menn náðu jafntefli á Camp Nou

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Barcelona og Málaga gerðu 2-2 jafntefli í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum spænska bikarsins en spilað var á heimavelli Barcaelona, Camp Nou. Það lið sem hefur betur mætir annaðhvort Real Madrid eða Valencia í undanúrslitunum en Real vann Valencia 2-0 í fyrri leiknum í gærkvöldi.

Tíu Málaga-menn náðu að skora jöfnunarmarkið á 90. mínútu leiksins en það skoraði Ignacio Camacho eftir aukaspyrnu frá Duda. Malaga lék manni færri síðustu fimmtán mínútur leiksins en tókst engu að síður að skora.

Málaga er spútnikliðið í spænska boltanum í vetur en er eins og stendur í fimmta sæti deildarinnar 23 stigum á eftir Barcelona-liðinu sem hefur yfirburðarforystuí toppsætinu.

Málaga komst í 1-0 á 25. mínútu með marki Manuel Iturra en það tók Barcelona innan við fimm mínútur að jafna og komast yfir.

Lionel Messi jafnaði leikinn á 29. mínútu og rúmri mínútu síðar kom Carles Puyol Barca í 2-1 með skalla eftir hornspyrnu frá Thiago Alcântara.

Málaga spilaði síðustu fimmtán mínúturna manni færri eftir að varamaðurinn Nacho Monreal var rekinn útaf á 75. mínútu. Börsungum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn í lokin og þeir fengu síðan á sig jöfnunarmark í blálokin eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×