Körfubolti

Stórt tap hjá Helenu og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða Good Angels Kosice
Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í Good Angels Kosice náðu ekki að fylgja eftir góðum sigri á Galatasaray í gær þegar liði steinlá á móti UMMC Ekaterinburg í öðrum leik sínum í úrslitakeppni Euroleague. Ekaterinburg er á heimavelli í úrslitakeppni og sýndi styrk sinn með 31 stigs sigri á Good Angels Kosice, 72-41.

Helena skoraði 5 stig á þeim 18 mínútum sem hún spilaði en hitti reyndar aðeins úr 1 af 6 skotum sínum. Hún var einnig með 3 fráköst, 2 stolna bolta og 1 stoðsendingu. Tijana Krivacevic var stigahæst í liðinu með tólf stig.

Ekaterinburg var komið í 26-8 eftir fyrsta leikhlutann og var 24 stigum yfir í hálfleik, 43-19. Anete Jekabsone skoraði 14 stig fyrir Ekaterinburg og Diana Taurasi var með 13 stig og 5 stoðsendingar. Candace Parker var með 11 stig og 13 fráköst.

Good Angels Kosice mætir pólska liðinu CCC Polkowice í lokaleik riðilsins á morgun þar sem sigur ætti að skila liðinu inn í undanúrslit svo framarlega sem að Galatasaray vinni ekki Ekaterinburg í lokaumferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×