Handbolti

Þórir segir óheppilegt að leikmaður og þjálfari séu í sambandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni á HM í desember.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni á HM í desember. Vísir/AFP
Þjálfari í efstu deild norsku knattspyrnunnar er sakaður um að hafa kynferðislega áreitt leikmann í liði sínu. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, segir ekki faglegt að leikmaður og þjálfari sama liðs eigi í ástarsambandi.

Forsaga umfjöllunar í norskum fjölmiðlum er sú að Öyvind Eide var ráðinn þjálfari Stabæk í ársbyrjun 2012. Um sumarið gekk Leni Laresen Kaurin til liðs við félagið og var leikmaður þess út árið 2013.

Þann 10. janúar síðastliðinn skrifaði Lisa-Marie Woods, leikmaður Stabæk, langa bloggfærslu um kynferðislega áreitni sem félagi hennar úr landsliðinu hefði orðið fyrir. Engin var þó nafngreindur.

Í síðustu viku skýrði Eide svo frá því í norsku dagblaði að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni í herbúðum Stabæk. Málið var tekið fyrir hjá forráðamönnum félagsins sem gáfu þjálfaranum skriflega aðvörun en leyfðu honum að halda áfram störfum.

Lisa-Marie Woods.Vísir/AFP
Þórir Hergeirsson, þjálfari landsliðsins, er spurður út í málið í viðtali við Verdens Gang. Þar segir Þórir mikilvægt að öll kurl komi til grafar í málinu svo hægt sé að hreinsa andrúmsloftið. Hann þekki aðeins til þess hluta málsins sem greint hafi verið frá í fjölmiðlum.

„Það getur verið að mikilvæg atriði eigi enn eftir að koma fram. Að því sögðu er ljóst að þetta er mjög óheppilegt og óviðunandi í íþróttum,“ segir Þórir.

Hann bætir við að þótt himinn og haf sé á milli kynferðislegrar áreitni og ástarsambanda telji hann að slíkt gangi ekki upp í liðsíþrótt. Það kom berlega í ljós þegar nuddari landsliðsins, Björn Olsson, og Heidi Loke felldu hugi saman í fyrra.

„Það er besta mál að þau séu par en við getum ekki notað hann lengur í landsliðinu. Það hefði ekki verið gott fyrir andann í hópnum okkar,“ segir Þórir.

Mosfellingurinn Telma Hjaltalín Þrastardóttir er leikmaður Stabæk sem varð bikarmeistari í Noregi á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×