Fótbolti

Fanndís: Bara partý í horninu og beint inn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir sá til þess að íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar um þriðja sætið á Algarve-mótinu því hún skoraði eina markið í 1-0 sigri á Kína í lokaleik riðilsins.

Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmaður KSÍ, tók Fanndísi í viðtal eftir sigurinn á Kína.

„Við erum mjög sáttar með sigurinn en ég myndi ekki segja að þetta hafi verið rólegur leikur því þetta voru slagsmál allan tímann og höfðum betur," sagði Fanndís.

„Þær voru sterkar og fastar fyrir en hentu sér auðvitað líka niður í grasið. Við höfðum kannski mátt gera það líka en þetta var hörku barátta og flottur leikur," sagði Fanndís.

„Þær náðu ekki að opna okkur en hefðu nokkrum sinnum getað sótt hratt á okkur. Við vorum með sterka vörn og þær komust ekkert í gegn," sagði Fanndís.

„Það sást frá byrjun leiks að við ætluðum að vinna leikinn. Við þurftum bara að vera þolinmóðar og svo náðum við að setja eitt," sagði Fanndís en hvernig var sigurmarkið?

„Bara partý í horninu og beint inn," sagði Fanndís hlæjandi. „Það kom enginn við boltann en Dagný truflaði markvörðinn mikið. Það var ekki leiðinlegt að skora sigurmarkið í svona leik," sagði Fanndís en það er hægt að sjá allt viðtalið hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Fanndís: Þetta var algjörlega mitt mark

Fanndís Friðriksdóttir tryggði íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta sæti í bronsleiknum á Algarve-mótinu með því að skora sigurmarkið beint úr hornspyrnu í uppbótartíma leiksins.

Dagný: Við erum alltaf grjótharðar

Dagný Brynjarsdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta spila um þriðja sætið á Algarve-mótinu eftir 1-0 sigur á Kína í kvöld.

Sandra: Ég er í skýjunum

Sandra Sigurðardóttir fékk tækifærið í marki íslenska kvennalandsliðsins í kvöld og hélt hreinu í 1-0 sigri á Kína. Hún var fyrsti íslenski markvörðurinn sem heldur markinu hreinu á Algarve-mótinu í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×