Körfubolti

Stelpurnar okkar komust í úrslit

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Íslenska landsliðið í körfubolta.
Íslenska landsliðið í körfubolta. Mynd/Facebook-síða KKÍ
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta komst rétt í þessu í úrslitin á Evrópukeppni smáþjóða í körfubolta með 85-59 sigri á Skotlandi.

Íslenska liðið hefur leiki gríðarlega vel á mótinu og fór nokkuð auðveldlega í gegnum riðlakeppnina þar sem meðal annars vannst 91 stiga sigur á Gíbraltar.

Stelpurnar náðu snemma undirtökunum í leiknum og leiddu 22-13 eftir fyrsta leikhluta.  Meira jafnræði var í leiknum í öðrum leikhluta en íslenska liðið hafði alltaf undirtökin og fóru liðin inn í hálfleik í stöðunni 40-27.

Stelpurnar gerðu hinsvegar út um leikinn í þriðja leikhluta með glæsilegri vörn og skipulögðum sóknarleik. Náðu þær að bæta forskotið um 11 stig í leikhlutanum og var staðan 62-38 eftir þriðja leikhluta.

Skosku stelpurnar sóttu aðeins á forskot íslenska liðsins í fjórða leikhluta en ógnuðu aldrei öruggu forskoti og smátt og smátt náðu íslensku stelpurnar betri tökum í leikhlutanum. Fór svo á endanum að íslenska liðið hafði betur 23-21 í leikhlutanum og hafði því betur í öllum fjórum leikhlutum leiksins.

Lauk leiknum því með 26 stiga sigri íslenska liðsins, 85-59 og leika þær til úrslita í keppninni. Úrslitaleikurinn fer fram á morgun en íslensku stelpurnar fá að vita mótherjann sinn á eftir þegar seinni undanúrslitaleiknum á milli Möltu og Austurríkis lýkur.

Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska liðsins lék í dag sinn 50. landsleik fyrir íslenska liðið og fór fyrir liði sínu að vanda. Var hún ansi nálægt þrefaldri tvennu með 16 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar þrátt fyrir að hafa glímt við meiðsli undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×