For an English version of news on the volcano in Bardarbunga, click here.
![](https://www.visir.is/i/BC5A24D40113DAC810DE073637C619F0E5796A0104D7BC28E99CB731B8A00C17_390x0.jpg)
Ekki sjást þó merki þess að kvikan sé á leið til yfirborðs. Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu, segir að kvikan sé ennþá á nokkurra kílómetra dýpi, líklega á þriggja til sjö kílómetra dýpi.
Veðurstofan var áður búin að setja Bárðarbungu á gulan lit gagnvart alþjóðaflugi en í hádeginu var viðbúnaðarstigið hækkað upp í appelsínugulan lit. Þetta virðist þó ekki hafa fælt þotuumferðina frá Vatnajökli, miðað við staðsetningu flugvéla á ratsjármynd um miðjan dag. Litakóðarnir eru fimm en sá rauði er gefinn út þegar eldgos er yfirvofandi eða hafið.
Skjálfti sem varð síðastliðna nótt upp á fjögur stig vakti sérstakan ugg.
„Þetta er mjög öflug hrina. Skjálftinn sem mældist þarna í nótt er sá stærsti síðan það gaus þarna 1996 í Gjálp. Við höfum bara fulla ástæðu til að gera ráð fyrir að þarna komi eldgos," sagði Kristín Jónsdóttir.
Innanlands er mesta hættan talin stafa af hugsanlegu hamfaraflóði. En hvar kæmi það niður?
Helgi Björnsson, helsti jöklasérfræðingur landsins, segir að gos í Bárðarbungu geti skilað hlaupi einkum í fjóra farvegi; til suðurs um Grímsvötn og Skeiðarársand, til suðvesturs í Köldukvísl og Þórisvatn, norður í Skjálfandafljót en einkum þó í norðaustur til Jökulsár á Fjöllum, sem nú þykir líklegusta hlaupleiðin, miðað við nýjustu staðsetningu jarðskjálfta.
![](https://www.visir.is/i/F69E23CC7B7CD4A84055F16A348FCB52918A406A6B3B90F55D0B088F8045FC84_390x0.jpg)
Yfir Jökulsá á Fjöllum eru þrjár brýr, þar á meðal á hringveginum við Grímsstaði. Helgi kveðst reikna með að þær gætu allar farið. „Ég á alveg eins von á því að þær séu ekki hannaðar fyrir svona ofsalegt rennsli," segir Helgi.
Ekki aðeins brýrnar þrjár yrðu í hættu því Jökulsá myndi flæða yfir bakka sína á stóru svæði, ógna byggð í Öxarfirði, og sjálfur Dettifoss myndu hugsanlega ekki standast áhlaupið.
![](https://www.visir.is/i/4D13B957D538018B2A934A7EA9C6065C0C5BC30A6B0558C1612A59AA250E3079_390x0.jpg)
Það gæfist hins vegar góður tími til að vara fólk við því flóðbylgjan kæmi ekki strax niður. „Það er nú væntalega hálfur sólarhringur. Það tekur það langan tíma, sem betur fer, þannig að það er nú hægt að bjarga ýmsu á hálfum sólarhringi eða einum degi," sagði Helgi Björnsson.