Skoðun

Framhaldsskóli fyrir alla

Árni Páll Árnason skrifar
Tillagan um að loka framhaldsskólum fyrir bóknámsnemendum yfir 25 ára aldri hefur eðlilega vakið hörð viðbrögð. Þeim er sagt að leita annað. En skólagjöld eru 225.000 kr. á önn í námi á háskólabrú í einkaskóla, en 13.000 í almennum framhaldsskólum. Hvers vegna þarf að loka ódýrum valkosti og búa til nýjan dýran? Maður um þrítugt hafði samband við mig vegna þessa. Hann er í öldungadeild að ljúka stúdentsprófi, til að geta fengið inngöngu í Lögregluskólann. Hann hefur verið á vinnumarkaði í láglaunastörfum um árabil. Af hverju á það að kosta hann 450.000 krónur á ári að ljúka framhaldsskólanámi, þegar 19 ára einstaklingur fær sama nám á 26.000 krónur? Af hverju á hann að borga refsigjald? Er hann lakari borgari? Er reynsla hans af vinnumarkaði til tjóns fyrir samfélagið?

Hin íslenska leið hefur verið sú að fólk fari á vinnumarkað, afli sér þar reynslu og komi svo aftur í skóla og ljúki námi. Er það verri leið en aðrar? Er vont að fá fólk með reynslu af vinnumarkaði í framhaldsskóla? Menntamálaráðherra segist vilja að framhaldsskólarnir séu „ungmennaskólar“. En af hverju eiga þá skólar fyrir fullorðna að vera færri, dýrari og torsóttari?

Hin beina og breiða braut hefur alltaf verið fær fyrir þá sem vel standa og eru svo heppnir að verða ekki fyrir áföllum. Það þarf að huga að hinum, þeim sem hafa minna á milli handanna, þeim sem hafa ekki haft aðstæður til að sinna námi, þeim sem eignast börn snemma. Það felst engin nýsköpun í að breyta framhaldsskólanum í einsleitan ungmennaskóla fólks með einsleitan bakgrunn. Það er þvert á móti afturhvarf til þess sem tíðkaðist hér á landi fyrir meira en 100 árum síðan. Jafnaðarmenn hafa engan áhuga á að endurvekja það menntakerfi og um það verður engin sátt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×