Fótbolti

Heimir: Það vill enginn missa af leiknum gegn Tékkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Brussel skrifar
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu í Brussel.
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu í Brussel. vísir/AP
Íslenska landsliðið heldur til Tékklands í dag en fram undan er erfið prófraun gegn öflugu liði Tékka þar sem toppsæti A-riðils undankeppni EM 2016 er í húfi. Bæði lið eru ósigruð eftir þrjá leiki en strákarnir máttu þó þola 3-1 tap fyrir Belgíu í vináttulandsleik á miðvikudagskvöldið.

Þrátt fyrir úrslitin leit Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara íslenska liðsins, björtum augum á framhaldið, ekki síst þar sem margir af þeim leikmönnum sem fengu tækifærið í Brussel náðu að minna rækilega á sig.

„Við höfum notað sama byrjunarliðið í öllum þremur leikjum okkar í undankeppninni til þessa og þessir strákar sem spiluðu í gær sýndu okkur og íslensku þjóðinni hvað þeir gátu. Þeir gerðu margir hverjir mjög vel. Það sem gladdi okkur þjálfarana helst var að hver og einn þeirra gjörþekkti sitt hlutverk,“ sagði Heimir í samtali við Fréttablaðið á hóteli liðsins í Brussel í gær.

Hann játar því að það hafi verið ákveðin óvissa að senda jafn óreynt lið til leiks gegn öflugu liði Belgíu.

„Belgar eiga hágæða leikmenn sem spila í bestu deildum í heimi og við vissum að maður gegn manni teljast þeir alltaf sterkari en við, sama hvaða liði við hefðum stillt upp í gær. En okkar helsti styrkleiki er liðsheildin og við sýndum í þessum leik hversu mikilvæg hún er.“

Margir þeirra sem spiluðu gegn Belgíu minntu á sig og Heimir segir að frammistaða þeirra hafi sent ákveðin skilaboð inn í leikmannahóp íslenska liðsins.

„Leikmenn vita nú að við eigum leikmenn fyrir utan það byrjunarlið sem við höfum notað í undankeppninni sem geta komið inn, spilað á stóra sviðinu og skilað sínu hlutverki vel. Það hjálpar til og þetta tekur leikmenn úr ákveðnum þægindaramma.“

Landsliðið æfði í Brussel í gær og mun æfa öðru sinni í dag áður en það heldur yfir til Tékklands. Nokkrir leikmenn hafa verið tæpir vegna smávægilegra meiðsla en Heimir hefur ekki nokkrar áhyggjur af stöðu liðsins fyrir leikinn mikilvæga á sunnudag.

„Ég veit að það verða allir klárir í þennan leik enda ekki einn einasti maður í leikmannahópnum sem vill missa af tækifærinu að taka þátt í honum,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×