Íslenski boltinn

Fyrirliði Þórs/KA æfir með einu besta liði Svíþjóðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur verið lykilmaður í liði Þórs/KA í mörg ár.
Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur verið lykilmaður í liði Þórs/KA í mörg ár. vísir/valli
Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, heldur til Svíþjóðar á morgun þar sem hún mun æfa með úrvalsdeildarliðinu Gautaborg í eina viku og spila einn æfingaleik.

Það er heimasíða Þórs sem greinir frá þessu, en Gautaborgarliðið hafnaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta ári sem er ein sú allra sterkasta í Evrópu.

Arna Sif hefur verið einn albesti varnarmaður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár, en þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára á hún að baki 155 leiki og 30 mörk fyrir Þór/KA.

Hún kom fyrst við sögu hjá liðinu í efstu deild árið 2007, þá 15 ára gömul, og lyfti Íslandsmeistarabikarnum þegar Þór/KA varð meistari sumarið 2012.

Hún á að baki tvo leiki fyrir A-landslið kvenna og samtals 38 leiki fyrir U19 og U17 ára landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×