Körfubolti

Stórleikur hjá Kristófer og Furman í úrslitaleikinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristófer Acox er ótrúlega öflugur í loftinu.
Kristófer Acox er ótrúlega öflugur í loftinu. vísir/getty
Kristófer Acox og félagar í Furman-háskólanum eru heldur betur að toppa á réttum tíma. Eftir að hafna í botnsæti suðurriðilsins í efstu deild háskólakörfuboltans er liðið nú komið í úrslitaleik riðilsins.

Furman vann aðeins fimm leiki af 18 í riðlinum en er nú búið að vinna þrjá í úrslitakeppninni. Það lagði þriðja efsta liðið, Mercer, 52-49, á dramatískan hátt í nótt.

Kristófer og félagar voru mest ellefu stigum undir í síðari hálfleik en sneri við taflinu undir lok leiksins. Þar kom Vesturbæingurinn sterkur inn og skoraði fjögur stig á lokakaflanum þegar Furman komst yfir.

Kristófer náði tvennu með tólf stigum og tíu fráköstum, en hann endaði tímabilið sem frákastahæsti leikmaðurinn í suðurriðlinum.

Furman leikur til úrslita í nótt gegn efsta liðinu Wofford sem vann 16 leiki og tapaði aðeins tveimur á tímabilinu. Sigurliðið kemst í 64 liða úrslit háskólakörfuboltans, hið svokallaða „March Madness“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×