Fótbolti

Rúrik: Súr tilfinning

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúrik Gíslason skoraði mark Íslands í 1-1 jafntefli gegn Eistlandi í kvöld en hann var ekki neitt sérstaklega ánægður með spilamennsku liðsins.

„Við byrjuðum mjög vel og fyrstu 20 mínúturnar spiluðum við mjög vel og sköpuðum fullt af færum. Í heildina er ég samt ekkert sérlega ánægður,“ segir Rúrik í viðtali við KSÍ.

„Eistarnir gerðu okkur erfitt fyrir og ég veit ekki af hverju. Við áttum erfitt með að halda í boltann og spila honum á milli okkar. Í seinni hálfleik vorum við slakari aðilinn og það er súr tilfinning.“

„Völlurinn var eins og gott tjaldstæði en auðvitað er það eins fyrir bæði lið,“ segir Rúrik.

Rúrik hefur ekki fengið mörg tækifæri að undanförnu enda liðið verið fastmótað hjá Lars og Heimi. Hann hefur þó nýtt sín tækifæri vel.

„Auðvitað vill maður alltaf spila meira en maður getur ekki endilega krafist þess að þjálfararnir breyti miklu þegar gengur vel,“ segir Rúrik.

„Þetta snýst bara um að vera á tánum, styðja liðsfélagana og nýta þær mínútur sem maður fær. Maður verður að mæta í landsliðið með bros á vör og taka virkan þátt í því sem fer fram.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Alfreð: Þetta voru vonbrigði

Framherjinn fagnar mínútunum 90 sem hann fékk í kvöld en er óánægður með frammistöðu íslenska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×