Körfubolti

Israel Martín tekur við Bakken Bears

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Israel Martín fagnar sæti Tindastóls í lokaúrslitunum.
Israel Martín fagnar sæti Tindastóls í lokaúrslitunum. Vísir/Stefán
Israel Martín Concepción verður næsti þjálfari danska liðsins Bakken Bears en hann gerði frábæra hluti með nýliða Tindastóls á þessu tímabili og var kosinn besti þjálfari Dominos-deildarinnar.

Bakken Bears segir frá ráðningu þessa fertuga Spánverja á heimasíðu sinni en hann mun heimsækja danska liðið í næstu viku og hefja síðan störf í byrjun ágúst.

Bakken Bears varð í 2. sæti í vetur alveg eins og Tindastólsliðið en liðið tapaði 4-2 á móti  Horsens í úrslitaeinvíginu. Israel Martín tekur við starfi Finnans Ville Tuominen sem snýr aftur á heimaslóðir sínar þar sem hann fékk starf sem framkvæmdastjóri  Joensuun Kataja Basket, sem er eitt stærsta körfuboltafélag landsins.

„Bakken Bears er stærsta félagið í Danmerku og setur alltaf stefnuna á að vinna titilinn. Ég hlakka líka til að taka þátt í EuroChallenge keppninni. Bakken Bears er metnaðarfullt félag og Árósir er yndislegu bær. Ég mun gera mitt besta í að hjálpa félaginu að ná markmiðum sínum," sagði  Israel Martín í viðtali á heimasíðu félagsins.

Israel Martín þjálfaði lið á Kanaríeyjum og í Kósóvó áður en hann kom til Sauðárkróks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×