Fótbolti

KSÍ tapaði í Hæstarétti og þarf að borga Landsbankanum eina milljón

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, stóð fyrir endurbætum á Laugardalsvelli fyrir tæpum áratug.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, stóð fyrir endurbætum á Laugardalsvelli fyrir tæpum áratug. vísir
Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, var dæmt að greiða Landsbankanum eina milljón króna í málskostnað í Hæstarétti í dag og máli sem KSÍ höfðaði á hendur bankanum var vísað frá.

KSÍ fékk reikningslánalínu upp á einn milljað frá Landsbankanum í september 2006 vegna framkvæmda við Laugardalsvöll.

Sambandið dró átta sinnum á lánið, en samtals var upphæðin 635 milljónir króna. Greitt var út í íslenskum krónum en um gengislán var að ræða. Því var helmingsskipt í svissneska franka og japönsk jen.

KSÍ byrjaði að greiða inn á lánið snemma árs 2007 og hafði greitt það að fullu í september árið 2009. Í heildina borgaði KSÍ 1.017 milljónir króna til baka.

Í kjölfar gengislánadóma sem féllu hér á landi höfðaði KSÍ mál gegn Landsbankanum, en það vildi meina að lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Lögmaður KSÍ vildi meina að endurreikna þyrfti lánin þannig að Landsbankinn þyrfti að endurgreiða það sem greitt hafði verið umfram skyldu.

Héraðsdómur dæmdi KSÍ í hag og sagði gengistrygginguna í andstæðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá átti Landsbankinn að greiða KSÍ 600.000 krónur í málskostnað.

Landsbankinn áfrýjaði til Hæstarétts sem sneri úrskurði Héraðsdóms í dag og þarf KSÍ nú að greiða bankanum eina milljóna króna í málskostnað fyrir hérað og Hæstarétt.

Hæstiréttur taldi að dómkröfur KSÍ í stefnu hefðu ekki verið nægilega skýrar auk þess sem lánin hefðu nú þegar verið greidd að fullu og samningarnir þannig efndir og KSÍ ekki sýnt fram á hvaða lögmætu hagsmuni sambandið hefði af því að fá viðurkenningu á því að samningarnir fælu í sér ólögmæta gengistryggingu.

Hefði málið unnist hefði KSÍ verið í stöðu til að sækja hundruði milljóna króna sem því fannst það hafa borgað umfram vegna verðtryggingarinnar. Niðurstaða Hæstaréttar er því viss skellur fyrir KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×