Körfubolti

Spánverjar búnir að velja 17 manna hóp fyrir EuroBasket

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pau Gasol er skærasta stjarna Spánar.
Pau Gasol er skærasta stjarna Spánar. vísir/getty
Sergio Scariolo, þjálfari spænska landsliðsins í körfubolta, hefur tilkynnt 17 manna hóp fyrir Evrópumótið, EuroBasket, í september.

Spánverjar eru sem kunnugt er með Íslandi í riðli en íslensku strákarnir fá að glíma við flestar af stærstu stjörnum Spánar næsta september.

Gasol-bræðurnir, Pau og Marc, eru á sínum stað í hópnum sem og Nikola Mirotic, samherji Pau Gasol hjá Chicago Bulls. Mirotic er Svartfellingur en er með spænskt ríkisfang. Aðeins einn slíkur leikmaður, sem er erlendur en hefur fengið ríkisfang, má vera í hverju liði á EuroBasket.

Serge Ibaka, leikmaður Oklahoma City Thunder sem er fæddur í Lýðveldinu Kongó, er einnig með spænskt ríkisfang en hann er ekki í hópnum. Bakverðirnir José Calderón, Ricky Rubio og gamla kempan Juan Carlos Navarro eru ekki með vegna meiðsla.

Meðal annarra þekktra kappa í spænska liðinu má nefna Rudy Fernández og Sergio Rodríguez en þeir léku báðir í NBA-deildinni á sínum tíma og urðu Evrópumeistarar með Spáni 2009 og 2011.

Hópurinn telur sem áður sagði 17 leikmenn en Scariolo þarf að fækka þeim niður í 12 áður en EuroBasket hefst 5. september.

Hópurinn í heild sinni:

Felipe Reyes - Real Madrid

Rudy Fernández - Real Madrid

Pau Gasol - Chicago Bulls

Marc Gasol - Memphis Grizzlies

Sergio Llull - Real Madrid

Sergio Rodríguez - Real Madrid

Fernando San Emeterio - án félags

Pablo Aguilar - Valencia

Alex Abrines - Barcelona

Dani Díez - Portland Trail Blazers

Pau Ribas - Valencia

Xavi Rabaseda - Movistar Estudiantes

Quino Colom - Bilbao Basket

Guillem Vives - Valencia

Nikola Mirotic - Chicago Bulls

Willy Hernangómez - Sevilla




Fleiri fréttir

Sjá meira


×