Íslenski boltinn

Ólafur: Nánast ógerningur fyrir öll lið að ná FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur var ekki sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld.
Ólafur var ekki sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld. Vísir/andri marinó
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, viðurkenndi eftir jafnteflið við Fjölni í kvöld að hans menn hefðu spilað illa í leiknum. Valur tryggði sér jafntefli í leiknum með marki varamannsins Einars Karls Ingvarssonar í lok leiksins.

„Ég er ánægður með stigið. Þetta var rólegur leikur og við spiluðum ekki vel. Það er því gott að fá stig úr slíkum leik,“ sagði Ólafur sem vildi ekki skrifa frammistöðuna á sigurinn í bikarnum um helgina eða stöðu liðsins í deildinni.

„Stundum á maður bara ekki góðan leik án þess að það sé sérstök ástæða fyrir því. Svona eru íþróttir bara.“

Hann segir að þjálfarar og leikmenn hafi byrjað strax eftir bikarleikinn að ræða um næsta leik í deildinni og taldi að það hafi ekki verið erfitt að fá menn á tærnar.

„Mér fannst það ekki vandamál. Okkar möguleikar til að klífa upp töfluna eru enn fínir enda með einu stigi meira í kvöld en við vorum með fyrir leikinn. Við ætlum að halda áfram.“

Hann segir það verði þó erfitt að ná toppliði FH að stigum úr þessu. „Ég held að það sé nánast ógerningur. Held að það sé reyndar ógerningur fyrir öll liðin. En við reynum að safna stigum og sjá hvað kemur úr því.“

Ólafur segir að Patrick Pedersen, sem kom inn á undir lok leiksins í kvöld, sé meiddur. „Hann verður betri með hverjum deginum en hann var ekki nógu góður til að spila í dag og verður sennilega ekki með á mánudaginn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×