Íslenski boltinn

Bergsveinn á leið til FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bergsveinn í leik með Fjölni.
Bergsveinn í leik með Fjölni. Vísir
Fjölnismenn eru að missa fyrirliðann sinn, varnarmanninn Bergsvein Ólafsson, til FH. Þetta hefur Vísir eftir sínum heimildum en FH hefur boðað til blaðamannafundar í Kaplakrika í hádginu.

Bergsveinn verður samningslaus síðar í mánuðinum en FH-ingar fengu leyfi Fjölnis til að ræða við hann fyrr í vikunni. Fleiri félög hafa gert hosur sínar grænar fyrir Bergsveini. Er KR meðal félaga sem hefur verið í sambandi við Bergsvein.

Hann er 23 ára gamall miðvörður sem hefur verið í stóru hlutverki hjá Fjölni undanfarin fimm tímabil. Hann mun koma til með að fylla í skarð Péturs Viðarssonar, sem er á leið utan í nám.

Davíð Þór Viðarsson, Róbert Örn Óskarsson og Kassim Doumbia eru þar að auki allir að renna út á samningi við FH en búist er við að FH endurnýji samninga sína við þá tvo fyrstnefndu.

Meiri óvissa er um stöðu Doumbia, sem er nú staddur í Belgíu í fríi, en hann á nú í samningaviðræðum við FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×