Fótbolti

Margrét Lára: Getum gengið stoltar af velli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir er búin að skora 74 landsliðsmörk.
Margrét Lára Viðarsdóttir er búin að skora 74 landsliðsmörk. vísir/vilhelm
„Fyrri hálfleikurinn var fínn,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í fótbolta, við Vísi um 4-0 sigurinn á Makedóníu í Skopje í dag.

Stelpurnar okkar skoruðu öll fjögur mörkin á fyrsta  hálftímanum, en erfiðara gekk að skora á rennblautum og ömurlegum vellinum í seinni hálfleik.

„Völlurinn var ekki eins slæmur í fyrri hálfleik. Við náðum upp betra spili þá og skoruðum fjögur mikilvæg mörk,“ segir Margrét Lára, sem var þó ekki jafn ánægð með seinni hálfleikinn.

Sjá einnig:Freyr: Leikmenn okkar eiga meiri virðingu skilið en þetta

„Þetta var ekki nægjanlega gott í seinni hálfleik. Við missum aðeins dampinn og völlurinn var ein drulla. Það var erfitt að fóta sig og þetta bitnaði allt á betra liðinu í dag.“

Völlurinn var algjört grín og var Margrét Lára því ánægð með að komast frá leiknum með góðan sigur á bakinu.

„Völlurinn var þungur og erfiður en við eigum aldrei að vanmeta sigur. Ég er ánægð með að vinna. Við reyndum að spila boltanum og héldum markinu hreinu. Það er frábært og við getum verið ánægðar með þetta og gengið stoltar af velli,“ segir Margrét sem skoraði tvö mörk í dag.

„Ég fann mig vel og hafði mjög gaman að þessu. Það er gott fyrir mig og mitt sjálfstraust að skora tvö mörk. Vonandi er þetta bara það sem koma skal hjá mér með landsliðinu,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×