Íslenski boltinn

Davíð Örn og Ívar Örn framlengja við Víking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Davíð Örn Atlason og Ívar Örn Jónsson.
Davíð Örn Atlason og Ívar Örn Jónsson. mynd/víkingur
Davíð Örn Atlason og Ívar Örn Jónsson, leikmenn Víkings, hafa báðir framlengt samninga sína við félagið til tveggja ára. Báðir eru þeir fæddir árið 1994. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Davíð Örn er uppalinn hjá félaginu, en hann er hluti af sterkum 94-árgangi Víkings sem skilaði einnig af sér Viktori Jónssyni (næst markahæsta leikmanni 1. deildar í sumar) og Aroni Elís Þrándarsyni, atvinnumanni hjá Álasundi í Noregi. Allir voru þeir hluti af U21 árs landsliði Íslands í sumar.

Davíð Örn kom við sögu í öllum 22 leikjum Víkings í Pepsi-deildinni í sumar. Hann skoraði þrjú mörk og lagði upp önnur fimm eftir að vera á láni hjá Dalvík/Reyni árið áður þangað sem hann fór til að komast í gang eftir meiðsli.

Ívar Örn kom til Víkings frá HK fyrir tveimur árum síðan og spilaði 20 leiki í Pepsi-deildinni í sumar. Ívar Örn skoraði fimm mörk fyrir Víking í deildinni, en hann hefur nú í heildina spilað 47 leiki fyrir liðið í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins og skorað sex mörk.

Davíð og Ívar geta báðir leikið sem bakverðir og miðjumenn og voru báðir valdir í U21 árs landslið Íslands í sumar sem er efst og ósigrað á toppi síns riðils í undankeppni EM 2017.

„Það er okkur mikil ánægja að framlengja samninga þessara ungu og efnilegu leikmanna sem við ætlum stóra hluti í framtíðinni,“ segir Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×