Íslenski boltinn

Bjarni: Við berum mikla virðingu fyrir bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson og Tómas Þór Þórðarson skrifa
Bjarni Guðjónsson er mikill bikarmaður.
Bjarni Guðjónsson er mikill bikarmaður. Fréttablaðið/Pjetur
KR bar sigur úr býtum í risaslagnum gegn FH í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins á sunnudagskvöldið, 2-1, og varð með því fyrsta liðið sem kemst í undanúrslit bikarkeppninnar átta ár í röð. KR hefur spilað til undanúrslita frá og með 2008 og unnið bikarmeistaratitilinn fjórum sinnum á því átta ára tímabili.

Næst koma ÍBV, Fram og Breiðablik, en þau hafa komist í undanúrslitin þrisvar á þessum átta árum. Yfirburðir KR-inga eru miklir þegar litið er til síðustu átta ára.

Síðustu fjögur ár hafa verið sérstaklega góð. Eins og kom fram í Fréttablaðinu á föstudaginn er KR með 95 prósenta sigurhlutfall í bikarnum síðan liðið tapaði, 4-0, í úrslitaleiknum gegn FH 2010.

Síðan þá hefur KR unnið 21 leik og tapað aðeins einu sinni. Liðið varð bikarmeistari 2011, 2012 og 2014. FH hefur á sama tíma aldrei komist í undanúrslit; unnið fjóra bikarleiki og tapað fjórum.

„Við náum að setja fókusinn á bikarinn og áttum okkur á muninum á milli deildar og bikars. Við berum líka mikla virðingu fyrir bikarnum. Úrslitadagurinn er skemmtilegur dagur sem við viljum alltaf upplifa,“ segir Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, um bikarárangur Vesturbæjarliðsins.

Áður en Bjarni gerðist þjálfari KR var hann sigursæll leikmaður liðsins og þekkir bikargleðina í Vesturbænum vel.

„Ég veit ekki hvernig þetta er hjá öðrum liðum en okkur langar alltaf að komast langt. Við viljum spila stóra leiki og leikur á móti FH í átta liða úrslitum er stórleikur sem og undanúrslit í bikarnum og auðvitað úrslitaleiknum. Það hjálpar svo líka að KR-liðin eru yfirleitt mjög góð,“ segir Bjarni Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×