Körfubolti

Æsispennandi sigur hjá Jóni Arnóri og félögum í toppslag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu. Anton
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu. Anton vísir/heimasíða kkí
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia unnu sinn sautjánda leik í röð í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar liðið vann  þriggja stiga sigur á Barcelona í toppslag deildarinnar, 94-91, eftir framlengingu.

Valencia hafði fyrir leikinn unnið alla sextán leiki sína í deildinni, en Barcelona hafði tapað einum. Því bættu leikmenn Valencia öðrum tapleiknum í kistu Barcelona og sautjándi sigurleikur Valencia í deildinni í röð staðreynd.

Valencia leiddi 23-21 eftir fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta vöknuðu heimamenn í Barcelona. Þeir unnu þann leikhluta 22-12 og leiddu 43-35 í hálfleik.

Gestirnir frá Valencia komu sterkir út eftir hlé og unnu þriðja leikhlutann 22-13 og staðan því 56-57 fyrir lokaleikhlutann. Hann var æsispennandi.

Þegar ein mínúta var eftir af leiknum leiddu gestirnir frá Valencia, 73-74. Valencia komst svo í 76-81, en svo gáfu þeir aðeins eftir. Barcelona gekk á lagið og Satoransky jafnaði með flautukörfu fyrir Barcelona. 82-82 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni reyndust gestirnir frá Valencia sterkiri og unnu að lokum þriggja stiga sigur, 94-91.

Jón Arnór Stefánsson spilaði rúmar tíu mínútur. Hann tók þrjú skot, en náði ekki að hitta úr neinu þeirra. Hann gaf eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×