Íslenski boltinn

Gary Martin kom að öllum fjórum mörkum Víkings í fyrsta leiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Martin í Víkingsbúningnum í Egilshöll í kvöld.
Gary Martin í Víkingsbúningnum í Egilshöll í kvöld. vísir/stefán
Það tók Gary Martin ekki nema hálftíma að skora sitt fyrsta mark fyrir Víking, en hann lagði upp tvö, kom við sögu í öðru marki og skoraði einnig í 4-2 sigri Víkinga á Haukum í Lengjubikarnum í kvöld.

Víkingsliðið réð lögum og lofum fyrsta klukkutímann og komst yfir á elleftu mínútu þegar Viktor Jónsson skoraði. Hann fylgdi eftir skoti Gary Martin í varnarmann Haukaliðsins.

Eftir að koma að fyrsta markinu lagði Gary Martin upp annað mark Víkings, en hann átti þá fyrirgjöf á Davíð Örn Atlason sem kom knettinum í netið, 2-0, á 27. mínútu.

Þremur mínútum síðar skoraði Gary svo sitt fyrsta mark fyrir Víking, en hann var keyptur til Fossvogsliðsins á mánudagskvöldið. Enski markahrókurinn stangaði hornspyrnu Ívars Arnar Jónssonar í netið á 30. mínútu.

Gary og Viktor Jónsson spiluðu saman í framlínu Víkingsliðsins í kvöld og á 53. mínútu komst sá enski í gott færi en renndi boltanum á Viktor sem skoraði fjórða markið, 4-0.

Haukar gerðu heiðarlega tilraun til endurkomu með tveimur mörkum á skömmum tíma. Sigurgeir Jónasson skoraði fallegt mark á 74. mínútu og Aron Jóhannsson minnkaði muninn í 4-2 á 75. mínútu. Nær komust Haukarnir ekki.

Víkingar eru á toppi riðils þrjú í Lengjubikarnum með sex stig eftir sigra á 1. deildar liðum HK og Hauka, en Haukarnir eru með eitt stig eftir jafntefli við KR í fyrsta leik.

Markaskorarar fengnir frá fótbolti.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×