Erlent

Pöndur í baði og brennandi Trump

Birta Björnsdóttir skrifar
Frans páfi fordæmdi hryðjuverk og stöðu flóttamanna í heiminum í árlegu páskaávarpi sínu í dag. Í Mexíkó var lagður eldur að eftirmynd Donalds Trump. Birta Björnsdóttir skoðaði hvað nokkrir jarðarbúar höfðu fyrir stafni á páskasunnudag.

Páfinn gerði stöðu flóttamanna í heiminum að umtalsefni í árlegu páskaávarpi sem hann flutti fyrir troðfullu Péturstorginu í Róm.

„Of oft er bræðrum okkar og systrum mætt með dauða og höfnun af fólki sem ætti að taka þeim fagnandi og bjóða þeim aðstoð,“ sagði páfinn.

Og pólitísk ádeila var víðar þennan páskasunnudag. Í Mexíkó sáu einhverjir tilefni til að leggja eld að eftirmynd forsetaframbjóðandans umdeilda Donalds Trump.

„Þetta er leið til að hefna sín á þeim sem manni finnst eiga það skilið á páskasunnudag. Að ná fram hefndum á fólki sem hefur skaðað mann eða svikið,“ sagði Miguel Angel Tinoco, íbúi í Mexíkóborg.

„Í þetta sinn völdum við Donald Trump því við erum orðin langþreytt á vitleysunni sem hann lætur útúr sér. Ég vona sannarlega að hann verði ekki kjörinn forseti.“

Í þorpinu Horhausen í Þýskalandi reyndu áhugasamir með sér í páskaeggjakasti í dag. Þetta er árleg hefð þar á bæ og fer fram hvernig sem viðrar. Páskaeggjunum er síðar safnað saman og þau borðuð með bestu lyst. Nema þau sem brotna í þúsund mola. Þau eru skilin eftir fyrir fuglana.

Sami sóðaskapur var hreint ekki uppi á tengingum hjá pöndunni Tian Tian sem brá sér í páskabaðið í dýragarðinum í Washington í Bandaríkjunum í dag. Pöndur baða sig víst ekki að staðaldri en samkvæmt upplýsingum frá dýragarðinum finnst Tian Tian gaman að leika sér í vatni á fengitímanum. Á meðan pabbi gamli baðaði sig lúrði sonur hans Bei Bei í búri sínu. Ekki fylgdi sögunni hvort þeir feðgar fengu páskaegg í ár.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá nánar hvað þessir jarðarbúar höfðu fyrir stafni þennan páskasunnudag.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×