Erlent

Clinton og Trump styrkja stöðu sína

Birta Björnsdóttir skrifar
Kosið var í fimm ríkjum í gær, í Connecticut, Delaware, Maryland, Pennsylvania og Rhode Island.Trump sópaði til sín yfirgnæfandi meirihluta kjörmanna í öllum ríkjunum fimm en Clinton tryggði sér stuðning meirihluta kjörmanna í fjórum ríkjanna. Bernie Sanders náði svo tveimur kjörmönnum umfram Clinton í fimmta ríkinu, Rhode Island.

Þau Trump og Clinton hafa því náð að styrkja styrkja stöðu sína all verulega gagnvart mótframbjóðendum sínum en Trump hefur tryggt sér 949 af þeim 1,237 kjörmönnum sem þarf til að tryggja sér útnefningu flokksins. Clinton þarf að tryggja sér 2382 kjörmenn og er nú komin með 1622, en Sanders 1282. Við það bætast síðan svokallaðir ofurkjörmenn sem eru innanbúðarmenn í flokknum. Clinton er talin eiga stuðning 519 þeirra vísan Sanders aðeins 39.

„Hillary kemur til með að hafa hræðileg áhrif á efahag landsins. Hún verður ekki góður forseti," sagði Donald Trump.

„Trump sakaði mig um að spila út „konu-spilinu". Ef það að berjast fyrir heilbrigðisþjónustu kvenna og fæðingarorlofi auk jafnréttis í launamálum er að spila út þessu konu-spili þá er ég sek um það," sagði Clinton.

Enn á eftir að kjósa um stuðning 502 kjörmanna hjá Repúblikunum og 1206 hjá Demókrötum. Það ríkir hvað mest eftirvænting eftir niðurstöðum kostninganna í Kaliforníu, sem fram fara þann 7.júní næstkomandi, en standa 172 kjörmenn til boða hjá Repúblikönum en 546 hjá Demókrötum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×